Á Eskifirði hafa verið starfandi mýmörg fyrirtæki á öllum sviðum í gegnum tíðina.  Hér verður hægt að fá smá fróðleik um þau.

 
Fyrirtæki og stofnanir sem eru Fyrirtæki og stofnanir sem voru

Eskja hf.

Eskja hf, sem áður hét Hraðfrystihús Eskifjarðar, var stofnað 8. maí 1944 og var tilgangurinn með stofnun þess að skjóta stoðum undir fábreytt atvinnulífi bæjarins. Stofnendur félagsins voru nokkuð á þriðja hundrað einstaklingar og fyrirtæki á staðnum. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins var Leifur Björnsson. Fljótlega eftir stofnun félagsins var hafist handa við byggingu frystihúss og hófst vinnsla þar 1947. Fyrstu starfsárin fékk félagið hráefni frá bátum er stunduðu aðallega veiðar með línu frá maí á vorin og frameftir hausti, en fóru á vertíð suður með sjó á vetrum. Einnig kom töluvert hráefni af smábátum yfir sumartímann.

Á seinni hluta 6. áratugarins hafði rekstur Eskju hf. gengið erfiðlega, og leiddi það til þess að tveir aðilar komu með nýtt hlutafé inn í félagið árið 1960, þeir bræður Aðalsteinn og Kristinn Jónssynir, og eignuðust 2/3 hlutafjár í félaginu, og tóku við stjórn þess. Ingólfur Hallgrímsson sem verið hafði framkvæmdastjóri félagsins frá 1949 lét af störfum. Aðalsteinn Jónsson tók þá við starfi forstjóra og Kristinn varð stjórnarformaður. Það er ekki ofsögum sagt að forstjóratíð Aðalsteins hafi verið tími mikillar uppbyggingar hjá fyrirtækinu þar sem kjarkur og áræði eldhugans breyttu nánast gjaldþrota félagi sem aðeins átti frystihús í fjörukambinum á Eskifirði, í eitt stærsta og öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með fjölbreytta og sterka starfsemi. Aðalsteinn gegndi forstjórastarfinu til áramóta 2000-2001 eða alls í 40 ár sem án vafa eru mestu uppgangsár í sögu Eskifjarðar og enginn efast um að af öðrum ólöstuðum er þáttur Aðalsteins þar stærstur. Við starfi Aðalsteins sem forstjóri tók Elfar Aðalsteinsson, en hann var áður framkvæmdastjóri Fiskimiða hf.

Árið 1959 eignaðist félagið sitt fyrsta skip Hólmanes, sem var 130 tonna stálbátur smíðaður í Noregi, og var gert út á línu- og netaveiðar, svo og á síldveiðar. Á árunum 1962-1970 eignaðist félagið nokkur skip að stærðinni 150-260 tonn, sem gerð voru út á línu- og netaveiðar, síldveiðar og togveiðar. Árið 1970 voru skipin seld og keyptur í staðinn skuttogari frá Frakklandi sem fékk nafnið Hólmatindur, og var hann annar af 2 fyrstu skuttogurum sem komu til landsins. 1980 var honum skipt út fyrir stærri togara sem fékk sama nafn. Árið 1972 var gengið til samstarfs við Kaupfélag Héraðsbúa um kaup á öðrum skuttogara er byggður var á Spáni. Var stofnað sérstakt hlutafélag um rekstur hans, Hólmi hf. Skipið kom til landsins í ársbyrjun 1974 og fékk nafnið Hólmanes. Hvort félag fékk helming afla skipsins til vinnslu, en Eskja hf. sá um rekstur þess. Þessu félagi var skipt upp 1996 og sameinað rekstri Eskju hf.

Árið 1952 var tekin í notkun hjá félaginu fiskimjölsverksmiðja fyrir fiskúrgang, en hún gat einnig unnið síld í smáum stíl. Á síðustu árum 6. áratugarins jukust síldveiðar við norður-og austurland til muna, og 1963 var verksmiðjan stækkuð og endurbætt fyrir síldarbræðslu, og var eftir það stór liður í rekstri félagsins.  Árið 1966 var síðan reist ný og afkastamikil verksmiðja á nýju hafnarsvæði fyrir botni fjarðarins. Verksmiðjan hefir síðan verið endurbætt og afköst aukin, fyrst á árunum 1977-1978 og síðan árin 1994-1995. Var þá komið fyrir loftþurrkun á mjöli og um leið hvarf að mestu leiti mengun frá verksmiðjunni. Byggðir voru 6 tankar til geymslu á mjöli. Öll framleiðsla verksmiðjunnar í dag er hágæðamjöl sem nýtt er til fiskeldis. Afköst hennar eru 1.100 tonn á sólarhring.  Árið 2012-2013 var síðan verksmiðjunni breytt enn frekar þegar hún var rafvædd þannig að hún brenndi engri olíu og yrði þannig mjög umhverfisvæn.  Einnig var 42 m hár skorsteinn reistur til að minnka mengun í byggð.

Á árunum 1967-1968 hvarf síldin að Íslandsmiðum, en fljótlega þar á eftir hófust veiðar á loðnu til bræðslu. Eftir því sem þær veiðar jukust var talið nauðsynlegt að félagið eignaðist skip til hráefnisöflunar, og árið 1978 keypti félagið 780 tonna skip er fékk nafnið Jón Kjartansson SU-111. 1982 keypti félagið annað skip, 360 tonn, er fékk nafnið Guðrún Þorkelsdóttir SU-211. Þá stækkaði flotinn enn er Hólmaborg SU-11 var keypt.  Á árunum 1997-1999 voru skipin endurbyggð og stækkuð í Póllandi og settar stærri vélar í Jón Kjartansson og Hólmaborg ásamt öflugum flottrollsbúnaði sem er nauðsynlegur fyrir kolmunnaveiðar sem hafa aukist mjög síðustu árin. Eru þær í dag ásamt loðnuveiðum uppistaða í veiðum skipanna.

Árið 1988 var hafin rækjuvinnsla í húsnæði sem keypt hafði verið af Jóni Kjartanssyni hf. Rekstur hennar gekk vel og reyndust rækjumið út af Austfjörðum fengsælli en áður hafði verið álitið. Til að svara kröfum kaupenda svo og til að auka afköst, var byggð ný og fullkomin verksmiðja að Strandgötu 14, og tók hún til starfa í maí 1999. Starfsemi verksmiðjunnar var lögð af um áramótin 2002-2003 vegna langvarandi erfiðleika að völdum verðhruns afurða í kjölfar offramboðs á erlendum mörkuðum.

Eftir því sem félagið efldist og umsvif jukust, þótti nauðsynlegt að koma upp eigin aðstöðu til að þjónusta skip og annan rekstur félagsins. Árið 1964 var stofnað vélaverkstæði og síðar rafmagns-og bílaverkstæði. Þessar deildir voru síðan seldar 2001 og 2002 til aðila sem hugðust halda þessum rekstri áfram og halda áfram þjónustu við Eskju.

Árið 1997 var hafinn rekstur nótastöðvar í nýju húsnæði að Hafnargötu 5. Rekstur netaverkstæðisins sem þjónað hafði togaraútgerðinni í áratugi var sameinaður nótastöðinni. Í dag veitir stöðin alhliða veiðarfæraþjónustu og er ennfremur þjónustuaðili fyrir hin þekktu kolmunnatroll frá Egersund Traal.

Árið 1986 flutti félagið í nýtt skrifstofuhúsnæði að Strandgötu 39, hannað af Ingimundi Sveinssyni arkitekt, en um árabil hafði skrifstofuaðstaðan verið á hálfgerðum hrakhólum.

Árið 1998 keypti félagið allt hlutafé í Útgerðarfélaginu Triton hf., sem átti bolfisk og rækjuveiðiskipið Gest SU. Skipið fékk nafnið Votaberg SU-10. Triton hf. var sameinað Eskju hf. að fullu í ársbyrjun 2000.

Um áramótin 2001-2002 var allt hlutafé í Útgerðarfélaginu Vísi í Sandgerði keypt. Bátur félagsins var seldur en allur kvóti sem félagið átti, um 550 þorskígildi, runnu til Eskju hf. við sameiningu félaganna.

Árið 2002 eignaðist Eskja hf. síðan 47,48% hlutafjár í Tanga hf. á Vopnafirði en hann var seldur aftur um leið og gengið var frá kaupum á öllum hlutabréfum í Hópi ehf. og Strýthóli ehf., í Grindavík. Með þeim kaupum eignast Eskja hf. umtalsverðan þorskkvóta.

Á aðalfundi 2003 var samþykkt að breyta nafni félagsins, úr Hraðfrystihúsi Eskifjarðar hf, í Eskja hf. Var þetta gert til að svara kröfum um þjálla nafn til að nota í samskiptum við erlenda viðskiptaaðila og til að auka möguleika félagsins til að selja framleiðslu sína undir eigin vörumerki.

Í ársbyrjun 2003 var ákveðið að selja annan skuttogara félagsins, Hólmatind og hætta starfsemi rækjuvinnslunnar. Henni var lokað í janúarlok og í framhaldi af því var hætt að gera út skipin Votaberg og Guðrúnu Þorkelsdóttur vegna kvótaleysis á þau skip. Þessar eignir, ásamt skuttogaranum Hólmanesi voru síðar lagðar inn í rækjuvinnslufyrirtækið Íshaf á Húsavík en Eskja fékk í staðinn nýlegan skuttogara, Ask, sem fékk nafnið Hólmatindur. Íshaf hf. lagðist af 2005.

2004 keypti Hólmi hf, nýtt fyrirtæki í eigu Elfars Aðalsteinssonar, Kristins Aðalsteinssonar og hjónanna Bjarkar Aðalsteinsdóttur og Þorsteins Kristjánssonar, arftaka Aðalsteins Jónssonar, allt hlutafé í Eskju hf., og í framhaldi af því var fyrirtækið tekið af hlutabréfamarkaði.

Í árslok 2004 lét Elfar Aðalsteinsson af störfum sem forstjóri Eskju og í framhaldi af því keyptu þau Kristinn, Þorsteinn og Björk, ásamt Fjárfestingafélaginu Bleiksá hf, hlut Elfars í félaginu. Í framhaldi af þessu voru Eskja hf og Hólmi hf sameinuð. Haukur Björnsson varð framkvæmdastjóri Eskju í framhaldi af þessum sviptingum.

Í ársbyrjun 2006 keypti Eskja hf, fjölveiðiskip með frystingu um borð. Skipið fékk nafnið Aðalsteinn Jónsson SU 11. Það var byggt í Noregi 2001 er 70 metra langt og 1700 brúttó rúmlestir. Þetta skip er útbúið sem vinnsluskip og getur sjófryst uppsjávarfisk, loðnu, kolmunna og síld auk þess að veiða fyrir mjöl og lýsisvinnslu.

2007 keyptu síðan hjónin Björk Aðalsteinsdóttir og Þorsteinn Kristjánsson hlut Kristins Aðalsteinssonar í Eskju hf.

Í ársbyrjun 2007 rak Eskja frystihús, og loðnubræðslu og gerði út skuttogarann Hólmatind og uppsjávarveiðiskipin Aðalstein Jónsson og Jón Kjartansson auk þess skrifstofuhalds sem verið hafði. Öll þjónusta við deildir félagsins var keypt af öðrum.  Í kjölfar verulegrar skerðingar á bolfiskkvóta 2007 var ljóst að rekstrargrunnur bolfiskfrystingar var ekki lengur fyrir hendi þrátt fyrir ítrekaðar hagræðingar og skipulagsbreytingar síðustu ára. Því var sú ákvörðun tekin að hætta rekstri frystihúss Eskju frá og með nóvember 2007.

Skuttogarinn Hólmatindur var í framhaldi af þessu seldur og hélt til nýrra eigenda í nóvember 2007. Með því lögðust bolfiskveiðar félagsins niður að sinni.

Aftur upp ...


Egersund Ísland

Egersund Ísland ehf. var stofnað árið 2004 og er hluti af fyrirtækjasamstæðu Egersund-Trawl A/S, í Noregi. Fyrirtækið var áður í eigu Eskju hf.  Egersud Ísland ehf. er staðsett á Eskifirði. Aðal starfsemi fyrirtækisins er sala, framleiðsla og viðgerðir á flottrollum og nótum. Netaverkstæðið er mjög vel staðsett á miðju Austurlandi. Vegna náins samstarfs við Egersund Trawl A/S. í Noregi hefur þróast tæknikunnátta á mjög háu stigi innan fyrirtækisins hvað varðar framleiðslu veiðarfæra.   Framleiðsluvörur Egersund Ísland ehf. eru flottroll, trollpokar, toghlerar, vírar og grandarar.

Egersund Ísland var lengi vel í um 1000 fermetra húsi sem kallar var "húsið á sléttunni" en árið 2009 var 2000 fermetra viðbygging reist utan við það gamla og opnað á milli.  Nýja húsnæðið skiptist í tvö rými, annars vegar rými til viðgerða og netagerðar og hins vegar svokallað nótahótel.  Fjarðabyggð sá um að byggja bryggju utan við hið nýja hús.  Sex metrar eru frá húsgafli yfir bryggjuna að skipshlið og auk þess var dýpkað fyrir framan veiðarfæragerðina þannig að þar er nú 10 metra dýpi á stórstraumsfjöru. Kostnaður við byggingaframkvæmdir voru um 400 milljónir króna.

Aftur upp ...


Sporður

Árið 1952 stofnuðu Egill Karlsson og Lúðvík Ingvarsson hlutafélagið Sporð.  Upphafið má þó rekja til áranna 1947-1948 en þá hóf þáverandi sýslumaður Suður-Múlasýslu, Lúðvík Ingvarsson, tilraunir til verkunar á harðfiski.  Þar byggði hann á eigin reynslu og annarra, að fiskur sem frystur er við vægt frost er "sætari og bragðmeiri" en ferskur fiskur eða hraðfrystur.  Hlutafélagið keypti gamalt sláturhús, breytti því í frystihús, sem enn er notað til flökunar og frystingar.  Einnig var keyptur gamall herbraggi sem var notaður við þurrkunina, bragginn er enn í notkun.  Veturinn 1951-1952 var allur búnaður settur upp til frystingar og þurrkunar og rekstur hófst síðan árið 1952.  Óhætt er að segja að varan, sem gekk undir nafninu "Sætfiskur" hafi slegið í gegn, enda heilnæm og holl náttúruafurð sem eingöngu er framleidd úr fersku úrvalshráefni án notkunar aukaefna.  Allt ferli vinnslunnar er handavinna og nostur sem líkja má við framleiðsluaðferðir dýrustu vína.  Vinnsluaðferð á harðfiskinum hefur lítið breyst í áranna rás.  Fyrirtækið hefur frá upphafi verið rekið af sömu fjölskyldu á Eskifirði.  Harðfiskurinn er seldur víða um Ísland m.a. í verslun Islandica í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Aftur upp ...


Tandraberg

Tandraberg ehf. var stofnað í desember 2001 til þess að þjónusta smábáta í Neskaupstað, slægja og gera afla þeirra kláran til sölu á fiskmarkaði. Fest voru kaup á 300 fermetra húsnæði við Naustahvamm í Neskaupstað. Stofnendur félagsins voru Einar Birgir Kristjánsson, Fiskmarkaður Austurlands og Eimskip. Fljótlega kom í ljós að afli smábáta í Neskaupstað var ekki nægur til að reka félagið eingöngu með þeirri þjónustu, var þá farið að slægja fisk á Eskifirði í húsnæði Fiskmarkaðarins.  Fiskvinnsla var hafin á Neskaupstað 2002 og flutt á Eskifjörð 2004 í leiguhúsnæðið "Eljuna" í eigu Eskju hf. Fyrirtækið vann við frystingu loðnuhrogna í verktöku fyrir Eskju hf. árin 2004, 2005 og að hluta 2006.  Árið 2003 gerði Tandraberg samning við Síldarvinnsluna í Neskaupsstað um löndun á ísuðum og frystum fiski. Það var upphafið af einni öflugustu löndunarþjónustu á landinu sem núna er rekin í Fjarðabyggð.  Tandraberg ehf. gerði út smábát um misseris skeið í viðleitni til að tryggja vinnslunni nægt hráefni, hét báturinn Tandri SU-49.  Fiskvinnslu og útgerð var hætt í maímánuði 2005 og leigusamningi um Eljuna sagt upp.

Eftir að fiskvinnslu var hætt þurfti að finna uppfyllingarstörf fyrir starfsmenn, en löndunarþjónusta er í eðli sínu mjög óreglubundin og stundum lítið að gera og stundum mikið. Var þá farið í ýmiskonar þjónustu við íbúa og sveitarfélag. s.s. hellulagnir og garðvinnu ýmiskonar.  Tandraberg á til helminga á móti Rafmagnsverkstæði Andrésar ehf. Byggingafélag Bjartsýnismanna ehf. sem byggði parhús við Langadal á Eskifirði og einbýlishús við Ystadal. Auk þess sinnir Tandraberg ehf. annarri tilfallandi byggingavinnu. 

Um mitt árt 2004 keypti Einar Birgir Kristjánsson allt hlutafé félagsins og er hann nú eini eigandi þess auk þess að gegna stöðu framkvæmdastjóra. Í árslok 2005 keypti Tandraberg iðnaðarhúsnæði við Hafnargötu 2 Eskifirði sem áður hýsti Réttingaverkstæði Jóns Trausta. Í því húsnæði voru skrifstofur fyrirtækisins.  Árið 2008 ákváðu stjórnir Eskju hf. og Tandrabergs ehf. að hafa makaskipti á fasteignum félaganna.  Eskja hf. seldi Tandraberg ehf. Strandgötu 6 og 8, þar sem Eskja rak lengi vel saltfiskverkun, í skiptum fyrir Hafnargötu 2.  Tandraberg hefur síðan lappað verulega upp á þessar eignir og umhverfi þeirra.

Aftur upp ...


Fjarðaþrif

Fjarðaþrif er fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var árið 2003 og veitir alhliða hreingerningaþjónustu ásamt því að reka þvottahús.  Eigendur fyrirtækisins eru hjónin Lára E. Eiríksdóttir og Björgvin Erlendsson.  Fjarðaþrif þjónustar m.a. Fjarðaál.  Fjarðaþrif hlaut hvatningarverðlaun Þróunarfélags Austurlands árið 2010 og Svaninn, norræna umhverfismerkið, árið 2012.  Fjarðaþrif rekur einnig blómabúðina Böggablóm.

Aftur upp ...


Vélsmiðja Hamars

Vélsmiðja Hamars á Eskifirði tók til starfa í desember 2002, þá undir nafni Hamar Austurland ehf. Var fyrirtækið rekið sér á grunni Vélaverkstæðis Hraðfrystihús Eskifjarðar.

Hamar ehf. keypti fyrst 51% í fyrirtækinu á móti Hraðfrystihúsmönnum sem áttu þá 49% í Hamar Austurlandi og var verkstæðið í gömlu bræðsluhúsi við Útkaupstaðarbraut 2 sem hentaði ekki vel undir smiðjurekstur. Ári síða 1. apríl 2003 var síðan gengið frá kaupum Hamars ehf. á 49% hlutafé Hraðfrystihúss Eskifjarðar og fyrirtækið sameinað undir nafnið Hamars ehf.  Árið 2005 var tekin fyrsta skóflustungan að nýju og glæsilegu húsnæði að Leirukrók 3 sem hýsir fyrirtækið í dag.  Vélaverkstæði Hamars ehf. á Eskifirði er ein fullkomnasta Vélsmiðja á Austurlandi með um 2.000 fermetra bjart og gott húsnæði.

Verkstæði Hamars ehf. getur tekist á við allar hugsanlegar véla-og járnsmíðaviðgerðir og nýsmíði hvort sem um er að ræða ryðfrítt stál, ál, stál eða steypujárn. Megin verkefni eru: Alhliða lausnir fyrir iðnað, vélaviðgerðir, þjónusta og smíði á vökvakerfi og rennismíði.


Kaupfélagið Björk

Kaupfélagið Björk á Eskifirði var stofnað 2. janúar 1935, aðallega af bændum umhverfis Eskifjörð, en einnig mönnum úr kauptúninu sjálfu. Fyrsti kaupfélagsstjóri var Markús E. Jensen, áður kaupmaður þar á staðnum, og seldi hann félaginu verslun sína við það tækifæri.  Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var séra Stefán Björnsson,  prófastur á Eskifirði, og var hann kjörinn fyrsti stjórnarformaður þess. Kaupfélagið rak tvær sölubúðir, sláturhús og fiskverkun. Félagssvæði þess náði yfir Eskifjarðarkauptún, Helgustaðahrepp og lítinn hluta Reyðarfjarðarhrepps. Félagsmenn voru tæplega 180 að tölu. (skv. Samvinnan 54. árg. 6-7 tbl. bls. 24)  Kaupfélagið Björk var með útibú í Vaðlavík.  Kaupfélagið Björk sameinaðist Pöntunarfélagi Eskfirðinga árið 1969.