Á Eskifirði og í nánasta umhverfi eru margir athyglisverðir staðir sem gaman er að skoða og fræðast um.  Hér gefst tækifæri til að lesa örstutta fróðleikspunkta um nokkra þessara staða, en sjón er sögu ríkari.

 

 

Helgustaðanáma

Náman er utan í fjallshlíð, um 100 m.y.s. Lítill lækur hefur grafið sig niður hlíðina og heitir hann Silfurlækur.  Bergið að vestan og norðanverðu við gilbakkann hefur verið tekið í burtu að parti til þess að ná í silfurbergið.  Í blágrýti því sem náman er í er net af óteljandi sprungum, smáum og stórum.  Í þessar sprungur hefur kolsúrt kalk (silfurberg) sest smátt og smátt svo að náman verður eins og samansafn af ótal silfurbergsgöngum, sem ganga í allar áttir.  Þeir eru mjög mismunandi að þykkt.  Silfurbergsæð getur á yfirborði verið 2 - 3 fet að þvermáli, en þykknað er neðar dregur.

Fallegasta silfurbergið finnst innan um mjúkan leir.  Stærsta holan sem tekið hefur verið úr, var um tvær mannhæðir á dýpt.  Í botni hennar og til hliðanna stóðu basaltnibbur og voru millibil þeirra sums staðar full af ógangsæju silfurbergi, en sums staðar voru holur fullar af rauðgráum eða mórauðum leir og í þeim fundust fegurstir silfurbergskristallar.

Mörg silfurbergsstykki voru talsvert gölluð.  Í sumum voru smásprungur, svo að í þeim sjást regnbogalitir.  Stundum eru gráhvít ský innan í steininum og voru það kallaðir grávefur og einstaka sinnum vatnsholur með loftbólum í, sem hreyfðust eftir því sem steininum var hallað.

Síðan á miðri 17.öld hefur alltaf við og við verið tekið úr námunni, í upphafi mátti hver sem vildi taka silfurberg úr námunni, en eftir miðja 19.öld var farið að selja hana á leigu.

Silfurberg var notað í ýmis sjóntæki, einkum til efnafræðilegra rannsókna og verða það að vera mjög hreinir og gallalausir kristallar.  Margir stærstu kristallarnir voru og eru undurfagrir og geymdir víða á steinasöfnum bæði hérlendis og erlendis.

Um 1870 lét Carl D.Tunilíus starfrækja silfurbergsnámuna og í ágústmánuði 1870 sendi hann vöruskip , sem hét Carl með silfurberg og rosta til Leith í Skotlandi.  Í þessum farmi fór stærsti silfurbergsteinn og um leið sá verðmesti, sem fundist hefur í þessari námu. Steininn var sagður vera um 600 pund, hreinn og ógallaður.

Í Skotlandi seldi svo Tunilíus steininn enskum auðmanni sem gaf svo steininn breska ríkissafninu þar sem hann skartar enn þann dag í dag.  Ekki fékkst Tuliníus til að gefa það upp, hvað hann fékk greitt mikið fyrir steininn, en hann á að hafa sagt er talið barst að silfurbergssölunni og steininum: Já, stóri steinninn var verðmikill.  Hann borgaði allan kostnað fararinnar og líka ferð okkar hjóna til Kaupmannahafnar - og vel það.  (Þáttur af Brynjólfi Jónssyni, Rvk, 1946).

Náman er nú eign ríkisins og er nú allri starfsemi þar hætt og er lítið að sjá þar annað en smá geil í hlíðinni og er silfurbergsmola varla lengur að finna þar í dag.  Talsvert af silfurbergsúrgangi (rosta) hefur verið notaður hér á árum áður í múrhúð utan á hús t.d. Þjóðleikhúsið og Þjóðminjasafnið.  Stirnir fagurlega á kristallana í sólskini.  Hvergi í heiminum hefur fundist svo hreint og fagurt silfurberg sem í Helgustaðanámu.  (Þ. Thoroddsen í Lýsingu Íslands.)

Hér er frekari umfjöllun um Helgustaðanámu.

Aftur upp ...


Sjóminjasafn Austurlands

Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði er í gömlu verslunarhúsi sem verslunarfélagið Örum & Wulff byggði um 1816.  Carl D. Tulinius sem var starfsmaður hjá félaginu, keypti verslunina um 1860 og rak hana til dauðadags árið 1905 og þá tóku við afkomendur hans og kölluðu fyrirtækið C. D. Tulinius efterfölgere og starfaði það til ársins 1912.  

000_0310.JPG (662174 bytes)

Á myndinni hér að ofan má sjá skjöld sonar Carls, Thore og ljósmyndir af Thore, Carl og konu hans.  Á þeim tíma var byggt nýtt verslunarhús og við það hlaut eldra húsið nafnið Gamla-Búð og hefur það haldist alla tíð síðan.  Gamla-Búð hefur þjónað margvíslegum hlutverkum í bæjarfélaginu, eftir að verslunin var flutt, fyrst sem pakkhús og síðar fiskgeymsla, veiðarfærageymsla o.fl.

Byrjað var á endurbyggingu hússins árið 1968 og var það þá flutt ofar í lóðina, eða þar sem það stendur í dag, til þess að rýma fyrir vegaframkvæmdum og árið 1983 var verkinu lokið.  Þá var búið að ákveða stofnun Sjóminjasafns á Eskifirði og var því komið fyrir í húsinu.  Safnið var opnað almenningi þann 4. júní 1983.

Þegar komið er að Gömlu-Búð finnst manni maður strax vera kominn á annað tímabil í sögunni.  Húsið er tjöruborið og á þakinu er kvistur með glugga.  Fyrir utan safnið eru nokkrir hlutir sem vert er að staldra við.  Þarna eru t.d. eld gamalt skútuanker, siglutré úr Gullfaxa frá Neskaupstað, lifrarbræðslupottar, skipaskrúfa o.fl.

Þegar gengið er inn í Gömlu-Búð er gengið inn í þann hluta þar sem krambúðin var upphaflega (A).  Þar er að finna marga gamla hluti sem tengjast verslun hér áður fyrr og nokkrir hlutir eru upprunnir héðan úr þessari búð.

000_0303.JPG (691016 bytes)  000_0305.JPG (713858 bytes)

000_0300.JPG (676521 bytes)

Þarna er líka hægt að sjá t.d. þessa sauðskinnsskó sem fundust á milli þylja í húsi einu í bænum.  Þetta eru líklega gömlu skór húseigandans og þeir eru greinilega vel nýttir þar sem komið er gat á þá flesta.

000_0301.JPG (701358 bytes)(m1) 000_0302.JPG (674032 bytes)(m2) 000_0307.JPG (691246 bytes)(m3) 000_0309.JPG (713118 bytes)(m4)

Sem dæmi um aðra hluti sem gaman er að skoða í verslunarhluta safnsins er m.a. silfurberg (m1) frá Silfurbergsnámunni við Helgustaði, skeggbolli (m2) með vörn fyrir yfirvaraskeggið svo sem minnst festist í því, stórt mortel (m3) til að búa til fiskfas eða fiskmarning og síðan þessar krukkur (m4) sem komu í veiðarfæri fyrir utan Útstekk en talið er að þessar krukkur séu frá tímum einokunarverslunar á þeim stað.

000_0306.JPG (659922 bytes)

Þessi öxi er talin vera sú sem notuð var við síðustu aftökuna á Austurlandi.  Þá var Eiríkur Þorláksson (1765 – 1786)  hálshöggvinn á Mjóeyri, utarlega í bænum.  Til er saga af þessari síðustu aftöku og samkvæmt þeirri sögu átti þessi blessaði maður ekki svo auðveldlega að deyja.  Svo illa gekk að höggva á háls hans að stoppa þurfti upp til að senda öxina í skerpingu innar í bænum.     Auk þess að hafa verið notuð í þennan verknað, hefur þessi öxi verið notuð t.d. sem ísöxi á bát o.m.fl.

Úr þessum verslunaranda er gengið inn um einar dyr inn í stóran sal, pakkhúsið (B), sem sýnir okkur sögu sjósóknar.  Andrúmsloftið er eins og maður sé í gömlu sjóhúsi og maður sér strax að þarna er margir athyglisverðir gripir.  Þessum hluta safnsins er skipt í 12 deildir og eru allar jafn áhugaverðar.

000_0312.JPG (679992 bytes)

1. deild sýnir hluti frá upphafi síldveiða hérlendis.  Við erum strax minnt á það að Norðmenn voru þeir sem voru frumkvöðlar í sjósókn og komu með margar nýlundur sem við síðan nýttum okkur.  Tveir menn eru oftar nefndir í þessu samhengi en aðrir en það eru þeir Peter Randulff frá Stavanger og Fredrik Klausen frá Bergen.

000_0315.JPG (716500 bytes)

Fyrsti hluturinn sem við sjáum í sögu síldveiða er líkan af landnót sem ekki var óalgengt að sjá hér við strendur áður fyrr.  Tímabil þessara landnóta var hér um bil frá 1880 - 1940.

000_0317.JPG (745984 bytes)

Annað líkan sýnir aðra tegund af nót sem kallast stauranót eða botnnet og var þessi tegund ekki mikið óalgengari.  Auk þessa sjáum við þarna t.d. lóð (m5) sem sjómenn notuðu til að kasta út og finna hvort fiskur væri undir bátnum hjá sér.  Sagt var að þeir hæfustu hefðu getað sagt hvaða tegund var um að ræða.  Við sjáum líka síldarreku, síldarklippur og síldartunnur (m6), sjókíkir og hlut sem heitir skimla eða síldarfæla (m7) en hún var notuð til að kasta í sjóinn til að reka síldina frá því að flýja.  Auk þessa er þarna líkan af einu dæmigerðu norsku sjóhúsi með öllu því sem því tilheyrir (m8), m.a. hesjur til að hengja hampnetin upp til þerris.

000_0314.JPG (681090 bytes)(m5) 000_0323.JPG (711180 bytes)(m6) 000_0316.JPG (712110 bytes)(m7) 000_0322.JPG (697268 bytes)(m8)

2. deild fjallar um hvalveiðar við Ísland.  Þar sjáum við t.d. líkan af hvalveiðistöð sem var í Hellisfirði árin 1904 - 1913.  Á þeim árum voru 5 hvalveiðistöðvar á Austfjörðum.  Hvalveiðistöðin sem var við Svínaskála í Reyðarfirði var starfrækt af dönskum og íslenskum aðilum frá 1904 - 1912.

000_0324.JPG (707766 bytes)

Þarna má líka sjá hrefnubyssu sem var eitt sinn í eigu Hrefnu-Gvendar á Vestfjörðum (m9) og tennur og ein hlust sem tekin hafa verið úr hvölum (m10).  Fyrir aftan hrefnubyssuna má sjá hvalskutla og flenshnífa.

000_0327.JPG (663825 bytes)(m9) 000_0326.JPG (677032 bytes)(m10)

3. deild fjallar um veiðarfæri til veiða á þorski og fleiri fisktegundum.  þetta eru svokölluð handfæri og má hér sjá þróun þeirra til nútímans.  

000_0328.JPG (639058 bytes)

4. deild hefur upp á að bjóða nokkur líkön af bátum t.d. líkanið sem er lengst til vinstri á myndinni hér að ofan er af færeyskum árabát en mikil tengsl voru við Færeyinga hér í tengslum við sjávarútveg.

5. deild er hálfgerður myndabanki sem sýnir ljósmyndir af skipum sem tengjast sögu sjávarútvegs á Eskifirði.  Þarna eru líka myndir af strandferðarskipum, varðskipum o.fl.

6. deild er með ýmsa hluti varðandi netagerð o.fl.  Þar má t.d. líka sjá skeljaplóg, línubjóð og línulaup.

000_0329.JPG (698047 bytes)

7. deild fjallar um sögu stjórnunar- og siglingartækja.  Þarna má sjá allt frá áttavitum upp í gamlar íslenskar talstöðvar.  Einnig er mikið af nafnskiltum af bátum frá Eskifirði.

8. deild er með líkön af þremur skipum á Eskifirði frá 1905 þegar fyrsti vélbáturinn kom í Reyðarfjörð og til ársins 1957.  Sjá má eitt líkanið hér að neðan.  Einnig er sýnd þróun þorskneta.

000_0332.JPG (689738 bytes)

9. deild sér um veiðarfæri, baujur o.fl frá vélbátaútgerð og einnig eru hlutir frá saltfiskverkun fyrri ára, ásamt ljósmyndum.  Hér að ofan má sjá myndirnar og borð þar sem konur stóðu við og skoluðu saltfiskinn fyrir þurrkun.  

10. deild er oft talinn sú sem vekur einna mestu spennu hjá þeim sem heimsækja safnið, en það fjallar um hákarlaveiðar.  Þar má sjá veiðarfæri, hnífa og önnur verkfæri tengd veiðunum.  Þarna er t.d. veiðarfæri sem kallast Gagnvaður og var með fjórum krókum ásamt stjóra og bauju.  Stjórinn var hólf fyllt af steinum og virkaði sem sökka og baujan var úr kálfskinnsbelg sem búið var að loka fyrir öll göt.  Sagan segir að stundum hafi það komið fyrir að upp komu fimm hákarlar í einu, þ.e. á hverjum krók og síðan á þverbitanum og þegar bætt er við að mennirnir voru á árabátum fer um hvern mann óhugur.

000_0331.JPG (700272 bytes) 

11. deild er með beykisáhöld sem tengdust tunnusmíði og viðgerðum.  Einnig er að finna þarna verkfæri til skipasmíða og viðgerða.

12. deild er síðan einn norskur árabátur frá 1916 en í honum er að finna ýmiskonar veiðitól s.s. handfæri, lúrusting, selasting og haglabyssu.

000_0318.JPG (733622 bytes) 000_0319.JPG (689144 bytes)

Þá er ekkert annað en að fara upp stiga sem er einu horninu og líta upp á aðra hæð safnsins en þar er að finna ýmislegt sem tengist almennum iðnaði og starfsemi á Eskifirði í gegnum árin.  Því svæði er skipt niður í 10 deildir.

Í 1. deild eru tæki til brjóstsykursgerðar sem voru keypt til Tuliníusar-verslunar árið 1905.  Þau voru síðar í eigu Jóns Þorsteinssonar bakara.

000_0334.JPG (700382 bytes)

2. deild er með skósmíðaáhöld frá ýmsum mönnum sem unnu við skósmíðar á Eskifirði áður fyrr.

000_0341.JPG (713892 bytes)

3. deild sýnir járnsmíðaáhöld sem algeng voru hér áður fyrr.  Flestir þeir munir sem eru þarna eru frá Kristjáni Jónssyni útgerðarmanns.

000_0340.JPG (670460 bytes)

4. deild er með búnað til framleiðslu á steinsteypurörum og steypusteinum til húsbygginga en þessi tæki voru í eigu Lúthers Guðnasonar frá 1930 - 1956.

Í 5. deild eru trésmíðaáhöld og hefilbekkur úr eigu Guðna Jónssonar sem starfaði sem trésmiður frá 1908 - 1970.  Einnig er þar rennibekkur sem var í eigu Jónasar Símonarsonar bónda og útgerðarmanns en hann gerði þennan rokk hér fyrir neðan úr hvalbeini í þeim rennibekk.

000_0338.JPG (690604 bytes)

Heilsugæslu á Eskifirði er gert skil í 6. deild.  Það telst nokkuð merkilegt að Eskfirðingar héldu úti lækni alveg frá árinu 1860.  Hér má sjá handlækningatæki sem voru í eigu Einars Ástráðssonar héraðslæknis 1931 - 1956.

000_0337.JPG (666218 bytes)

Tannlækningatæki frá Baldri Óla Jónssyni sem var tannlæknir á Eskifirði frá 1939 til fram yfir 1960, eru sýnd í deild 7.

000_0336.JPG (683978 bytes)

8. deild er með tæki tengd ljósmyndun en á Eskifirði hefur alltaf verið miklir og góðir ljósmyndarar sem hafa skráð sögu Eskifjarðar í myndum.

Tóvinnutæki, spunavélar, rokkur, prjónavélar og gamall vefstóll er nokkuð sem má sjá í 9. deild.  Það telst nokkuð merkilegt að nokkrar konur á Eskifirði skyldu hafa keypt í sameiningu vefstól til að geta unnið við og búið til hin ýmsu stykki fyrir sig og sína.

000_0339.JPG (693230 bytes)

Í síðustu deildinni þ.e. 10. deild er síðan fjallað um hin ýmsu heimilistæki frá fyrri tíma og þá aðallega tæki tengd eldhúsinu.  Þar má sjá skilvindur, strokka, smjörmótunargræju o.m.fl.

000_0342.JPG (683966 bytes)

Fyrir miðju gólfi á efri hæðinni má sjá stórt líkan af Eskifirði á árunum 1922 - 1923 eftir fyrrverandi safnvörð, hann Geir Hólm.  Þarna er vel hægt að sjá hvernig þorpið leit út gaman er að spá í allar breytingarnar sem orðið hafa á þessum í raun stutta tíma.

000_0335.JPG (675624 bytes)

Hér er keimlík umfjöllun um safnið.

 Aftur upp ...


Hólmanes og Hólmaháls

Hólmatindur er afar tilkomumikið fjall og rís 985 m yfir sjávarmál milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Hólmanes sem teygir sig til suðausturs frá honum er klettótt og ber þar mest á Ytri-Hólmaborg (114 m) en norðan á nesinu er þó nokkurt sléttlendi. Utan til á  nesinu  eru víða hamrar í sjó fram en innar malar- og þangfjörur.

Hólmanes og Hólmaháls eru að miklu leyti úr basísku bergi sem hefur storknað á yfirborðinu og er dökkt á lit. Yst á nesinu er berggrunnurinn þó úr súru gosbergi, svokölluðu líparíti, sem er ljósleitt og er þar vestasti og yngsti hluti Reyðarfjarðareldstöðvar sem var virk fyrir 11-12 miljónum ára.  Líparítið er viðkvæmt fyrir veðrun og klofnar sundur í flögur og sést þetta mjög greinilega norðan og austan við Ytri-Hólmaborg. Borgirnar og Hólmarnir eru aftur á móti innskot sem hafa myndast við storknun bergkviku neðanjarðar sem tróðst inn á milli hraunlaganna er fyrir voru. Þessi innskot, sem eru úr basísku bergi, svokölluðu díabasi, reyndust harðari en hraunlögin í kring og hefur því rofmáttur ísaldarjökulsins ekki náð að vinna eins auðveldlega á þeim og berginu í kring. 

Eftir að eldvirkni lauk við Reyðarfjörð hafa  roföfl unnið að landmótun og áhrifamestir voru jöklar ísaldar.  Reyðarfjörður er heljarmikill jökulsorfinn dalur og lá meginjökullinn út eftir honum. Annar þynnri jökull hefur skriðið út Eskifjörð og er hann því grynnri en Reyðarfjörður. Dýpi í mynni Eskifjarðar er 30-50 m en 60-150 m í Reyðarfirði, sunnan við nesið. Hólmarnir líta út eins og hvalbök og  vitna um skriðstefnu jökulsins.

Skeleyri hefur myndast við sjávarrof í Reyðarfirði. Hún er gerð úr líparítmöl sem sjórinn hefur skolað utan úr Básum og hlaðið upp á strauma-skilum.

Hólmanes og hluti af Hólmahálsi var friðlýst árið 1973 sem fólkvangur norðanmegin en friðland sunnanmegin og réði því mismunandi eignarhald. Um svæðið gilda þó samræmdar reglur.  Náttúrustofa Austurlands hefur gefið út yfirgripsmikla skýrslu um þetta landssvæði.  

Hér er hægt að skoða þessa skýrslu. 

 Aftur upp ...


Hólmatindur

Hólmatindur (985m) er milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar.  Hann er eitthvert tignarlegasta fjallið við þessa firði.  Hólmaháls teygir sig niður á Hólmanes, sem var friðlýst sem fólkvangur og að hluta sem friðland árið 1973.

Klettaborgirnar tvær, Hólmaborgir, eru þar og á Langhömrum er völvuleiði.  Sagan segir, að völvan hafi lagt svo á, að Reyðarfjörður yrði ekki fyrir árásum ræningja á meðan bein hennar væru ófúin.  Tyrkir hröktust undan óveðri, þegar þeir reyndu að sigla inn fjörðinn snemma á 17. öld og þýsk flugvél fórst í fjall í firðinum síðar.  Englendingar urðu ekki fyrir skakkaföllum af völdum völvunnar, því að þeir voru menn friðarins.  Skriðuföll eru algeng úr Hólmatindi.

Ágæt gönguleið er upp með gilinu fyrir ofan bæinn Sómastaði og upp á Hólmatindi er gestabók sem hægt er að kvitta í.  Útsýnið ofan af Hólmatindi er hreint út sagt frábært.

Hér er hægt að skoða myndir úr gönguferð Ferðafélags Fjarðamanna upp á Hólmatind

 Aftur upp ...


Ljósárvirkjun

Árið 2004, þegar haldið var upp á 100 ára afmæli rafmagnsins á Íslandi, var lítið minnst á Ljósárvirkjun eða Rafveitu Eskifjarðar.  Þó var virkjunin, sem gangsett var í nóvemberlok 1911, ein af fyrstu vatnsaflsvirkjunum sem reistar voru á landinu, sú fyrsta utan Hafnarfjarðar.  Hún er jafnframt sú elsta sem hefur varðveist.  Rafveita Eskifjarðar var önnur í röð almenningsveitna og fyrsta rafveitan á Íslandi sem þjónaði heilu sveitarfélagi.

Í blaðinu Austra, sem gefið var út á Seyðisfirði, birtist athyglisverð grein 4. desember 1911.  Þar segir frá raflýsingunni á Eskifirði og lokaorðin voru á þessa leið: „Sneypulegt fyrir Seyðfirðinga að verða hér á eftir Eskifirði.“  Seyðisfjarðarbær var í fararbroddi á landsvísu á ýmsum sviðum um þetta leyti, svo sem í heilbrigðis- og menntamálum og fyrsta bæjarvatnsveitan kom þar, 1906.  En bærinn hafði misst Eskifjörð fram úr sér í rafmagnsmálunum þegar hér var komið í sögu.

Sú skoðun hefur verið útbreidd að Ljósárvirkjun hafi verið of afllítil til að raflýsa Eskifjörð.  Það stafar ekki síst af því að menn hafa talið hana aflminni en hún var.  Hún var 26 kW sem er heldur minna en afl Hörðuvallastöðvar í Hafnarfirði, sem var 37 kW.  En afl á hvern íbúa var þrefalt meira á Eskifirði heldur en í Hafnarfirði.  Það var einnig meira á hvern íbúa þar heldur en á Seyðisfirði tveimur árum síðar, árið 1913, þegar Fjarðarselsvirkjun hafði verið gangsett.  Vandi Eskfirðinga var að oft var lítið vatn í Ljósá á vetrum.  Þeir ráku hana þó í hálfa öld.  

(Umfjöllun þessi er tekin úr Streymi - Fréttabréf um orkumál, 6. mars 2007, gefið út af RARIK ohf.)

Aftur upp ...


Völvuleiðið

Rétt norðan við miðjan Hólmaháls ofan vegar er Völvuleiði. Því fylgir sá átrúnaður að völvan sem þar hvílir muni vernda Reyðarfjörð fyrir innrásum meðan eitthvert bein hennar er ófúið. Völvan átti heima á Sómastöðum og sagt er að ljósir steinar í túni hins gamla kirkjustaðar Hólma séu yfir leiðum barna hennar. Þegar Tyrkir rændu við Ísland 1627 sendi hún á þá geysandi storm svo að fjöll þakti í sjávarroki beggja vegna fjarðar og urðu þeir frá að hverfa. Í seinna stríði kom hún því svo fyrir að sprengjuflugvél á leið inn Reyðarfjörð brotlenti í Krossanesfjalli á svokölluðum Völuhjalla þar sem leifar hennar er enn að finna. 

Til marks um trú Reyðfirðinga á mátt hennar, réði staðsetning leiðisins landamerkjum þegar Eskfirðingar og Reyðfirðingar skiptu með sér löndum árið 1968.

Hér má lesa frétt á mbl.is þegar varðan var löguð.

Aftur upp ...


Eskifjarðarheiði

Eskifjarðarheiði var þjóðvegur til forna og þar eru mikil ummerki gamallar vegagerðar. Um hana lá verslunarleið frá Héraði á einokunartímanum og hún var aðal póstleið milli Héraðs og Fjarða.  Hæst um 640 metrar.  Einnig hægt að fara yfir jökulinn Fönn og yfir í Mjóafjörð.

Árið 1942 lentu breskir hermenn í óveðri á heiðinni og urðu nokkrir þeirra úti þá nótt.  

Hér er hægt að lesa frásögn Bergþóru Pálsdóttur um þennan atburð.

Aftur upp ...


Skrúður

Skrúður (Skrúðey) er há og brött klettaey, hin hæsta við Austurland", segir í Lýsingu Íslands" eftir Þorvald Thoroddsen.  Hún liggur út af norðaustanverðum Fáskrúðsfirði, um 1.5 sjómílum frá Hafranesi.  Eyjan er 161 m á hæð og gróin upp á koll, breiðust að norðan,  en mjókkar frekar til suðurs, líklega rúmir 20 hektarar að flatamáli.  Hún hefur orðið til við súrt eða ísúrt gos, trúlega í tengslum við vatn (jökul) eða sjó.

Skrúðurinn liggur undir Vattanesi og hefur í áranna rás verið nýttur af Vattanesbændum til sauðfjárbeitar, fuglaveiða og eggjatöku.  Jafnframt er talið að Fáskrúðsfirðingar hafi haft þar einskonar útver fyrr á öldum.  Mikil hlunnindi þóttu af fuglaveiðum og eggjatöku en í slíkar ferðir var vanalega farið kl 3. og komið til baka um miðnætti.  Í hverri ferð voru oftast 2 sigmenn og svo 4 menn á hvorri festi.  Aðallega var náð í svartfuglsegg, svartfugl og lunda, en Lundarbrekka í Skrúð er ein þéttsetnasta lundabyggð á Íslandi.  Þessa má geta að áður en Færeyingar fóru að veiða með háfi í Skrúð var svartfuglinn þar snaraður.  Afdrep höfðu skrúðsfarar i Blundsgjárhelli og var þar matast og ýmislegt  til gamans gert m.a. keppt í eggjabáti.  Mun metið vera 12 svartfuglegg í eina máltíð ,,og tvær þrjár rúgbrauðssneiðar með" var viðkvæði methafans. Í Skrúð heitir stuttnefjan ,,drunnnefja."

Fé var haft í Skrúðnum og þótti hæfilegt að hafa 30 ær yfir veturinn og aðrar 30 í viðbót yfir sumarið.  Var féð sett á land og tekið að hausti við svokallaða  Sauðakamp.  Yfirleitt voru valdar til sumarbeita tvílembdar gamlar ær sem átti að lóga um haustið.  Á þessari öld var venja að rétta til rúnings í Blundsgjárhelli, en önnur rétt er í Skrúðshelli.  Fé gengur mjög vel fram í Skrúð en komið gat fyrir að það teygði sig of langt fram á brún vá vorin og hrapað, einnig helst við Þórðarbjarg, en grös lifna fyrst í brúnum.  Engin afföll voru af lömbum á góðum vetrum en hver sem orsökin kann að vera reyndust afföll gamla áa ætíð meiri.  Kjötið affé sem gekk í Skrúðnum þótti vera bráðleitt og vildi taka bragð af skarfakálinu.

Mikil gnægð er af skarfakáli í Skrúð og svo mikil gróskan að nær vel í hné.  Þótti kálið mjög góð lækning við skyrbjúgi en var jafnframt vel fallið til að sýra með drykk.  Ennfremur var gerður af því grautur auk margskonar annarra nytja í matargerð. 

Eins og víða annars staðar undir fuglabjörgum er stundum stórlúðu af fá við Skrúðinn.  Einnig getur færafiskur tekið svo nálægt Skrúðnum að þurfi að stjaka bátnum frá með ár meðan dregið er.  Líklega hefur Bjarni Magnússon ekki verið ókunnugur þessum hlunnindum í ,,Skrúðey" er hann sótti um leyfi til að byggja þar árið 1788 en var synjað.  Með aðsetur í eynni mun hann jafnframt hafa ætlað að leggja stund á hafnsögu.  

Í ládeyðu er hægt með erfiðismunum að setja bát á fjórum stöðum í Skrúð.  Við Sauðakamb og Móhellu sem eru norðaustan á eynni. Við Blundsgjárvog sem er suðaustan á eynni, en þar er hægt að vogbinda og því þægilegt fyrir stærri báta.  Fjórða lendingin er í Hellisvíkurfjöru.  Sem er einnig er suðaustan á eynni, nokkru fyrir sunnan Blundsgjárvog.  Lágsjávað verður að vera svo myndist fjara og ekki verður komist upp úr fjörunni nema með aðstoð eða nota siga.

Algengast er að setja menn á land við Sauðakamb en einnig á Straumsnöf að norðan og á Löngunöf suðvestan á eynni.

Ég var svo heppinn að komast út í Skrúð með Baldri Rafnssyni bónda á Vattarnesi hinn 24. júlí 1989.  Var ég í morgunkaffi inni á Reyðarfirði þegar kallið kom og vasaljós, feltbók og önnur tól þau og tæki sem tilheyra náttúrurannsóknum víðs fjarri.  Myndavélin var þó með einungis fáar myndir óáteknar.  Ritblý fannst í vasa og skrifa þurfti minnispunkta á skyrtuna.  En það tókst að ná í tæka tíð út á Vattarnes og í Skrúðinn komumst við.

Í rauninni var þetta veiðiferð, og á meðan Baldur og félagar slógu fyrir lunda, skoðuðum  við Guðný eyna.  Reyndum þó aðeins fyrir okkur í veiðiskapnum og nutum útsýnis af Skrúðskolli drjúga stund.  Veður var hið fegursta, sólskin og smá gráð en lagði þó að með golukalda er á leið.  Þokuslæðu dró annað veifið í hlíðar strandfjallanna líkt og til að undirstrika fegurð einstakra fjallatinda.  Til norðurs sést ekki lengra en í Gerpi en fjöllin og byggðin við norðanverðan Reyðarfjörð blasa við frá þessum sjónarhóli og innar ber Hólmatind yfir Vattarnesið.  Þá sér inn Fáskrúðsfjörðinn með Sandfellið  að sunnanverðu og í suðri rísa Súlurnar yfir Stöðvarfjörð og lengst í suðri skagar Hvalnesið fram.  Inn til landsins sér á koll nokkurra þekktra fjalla og hvít breiða Vatnajökuls lýstir upp bakgrunninn.  Fögur sjón er seint gleymist. 

Eftir að hafa um eyna dvöldum við drykklanga stund í dalverpinu Dyngju utan við Skrúðshelli.  Sleiktum þar sólskinið i metersháum gróðrinum og hlustuðum á samhljóm ýmissa fuglahljóða er í fyrstu voru sem óþægilegt garg en breyttust í ómþýðari klið við frekari hlustun.  Fuglalífið er fjölskrúðugt og sáum við eftirtaldar tegundir: lunda, langvíu, stuttnefju, ritu, súlu, fýl, svartbak, hettumáf, sílamáf, óþekkta máfategund,  teistu, kríu, hrafn, maríuerlu, sólskríkju, bæjarsvölu (blauta og úfna en forvitna) og líklega steindepil.  Þar sáum við geldan æðarfugl á sjónum, en talið er allt fram að 1880 hafi æðarfugl orpið að staðaldri í Æðhelli, suðvestan í Skrúðnum og svo eitthvað í Drúldum sem eru að norðaustanverðu.  Fram yfir síðustu aldamót sást aldri fýll að árið 1943.  Sagt er að fálki geri sig stundum heimakominn í Skrúð og efni til veislu. 

Ógrynni er af ýmsum skordýrum, meðal annars bjalla sem líkist risavöxnum járnsmið.  Var nú fönguð og flutt á land til frekari rannsóknar, en einnig ber talsvert á blöndustrokk og burnirót.  Einnig geldingarhnappi, smára, hjartaarfa, ólafssúru, brennisóley og túnfífli og svo nokkrar tegundir séu nefndar.

Eftir að hafa hlustað og horft bergnumin á hið stórkostlega sjónarspil og symfóníu náttúrunnar héldum við í Skrúðshelli, bústað Skrúðsbónda sem forðum seiddi til sín prestdótturina frá Hólmum.

Smellið á myndina til að sjá stærri mynd.

Leiðin að hellismunnanum liggur úr Dyngju um einstigi nokkurt og er stór steinn þar á leiðinni sem krækja þarf upp fyrir.  Er þá stutt leið eftir í hellinn, en þó sú varasamasta sökum lausrar malar í annars harðri og brattri brekkunni.  Inni í hellinum er hátt til lofts og vítt til veggja.  Var hellirinn skrefaður og gerður fylgjandi uppdráttur við mjög frumstæðar aðstæður eins og áður hefur komið fram.  Mest er lofthæðin fyrst þegar inn er komið 50-60 m ágiskað og lengd þvert yfir ytri og innri hellinn 100m, ámóta og fótboltavöllurinn, en hellinum má skipta í tvær hvelfingar.  Ágæta má fremri hellinn um 3200 m2 og þann innri um 26000m2.  Ef reiknað er með 30 m meðallofthæð í fremri hellinum og 15 m í þeim innri fæst að stærð Skrúðshellis er a.m.k.. 130 þúsund rúmmetrar, varlega áætlað.  Þetta er svipað og rúmmál 300 einbýlishúsa og íbúarnir nokkur hundruð ritur.

Erfitt er að gera sér grein fyrir tilorðningu hellisins sökum þess hve dimmt er inni þó svo að augun smávenjist rökkrinu.  Sennilegast er hann fyrrum rás eftir bráðna hraunleðju frá þeim tíma sem eyjan myndaðist.  Hráslagalegt er í hellinum og var lofthiti þar 7°C en á sama tíma í Dyngju úti fyrir 23°C.  Gólfið er moldborið, slétt að mestu með stóreflis steinum á víð og dreif sem fallið hafa úr loftinu.  Við haftið á milli hvelfinganna er hlaðin rétt, en þangað var féð rekið til rúnings og frádrags.  Einnig eru leifar af hleðslu sem hugsanlega hefur lokað af innri hellinn fyrir sauðfé.  Í innri hellinum er tjörn með 7°C vatni en frásagnir herma að stundum hafi ís ekki verið farinn af henni um miðjan júní.  Tekið var sýni af vatninu til efnagreininga og sjást þær niðurstöður með fylgjandi töflu.  Að uppruna til er þetta rigningarvatn sem hripað hefur í gegnum bergið og um skriðuna sem er inni í hellinum stutt frá tjörninni.  

 

Tafla um efnainnihald vatns (mg/kg) úr Skrúðshelli, safnað 24. júlí árið 1989.

pH/°C

6,25/23

CO2

<1

H2S

0

SiO2

3,6

SO4

79,1

Cl

450

F

0,57

Fe

0,05

Br

1,9

Nítrat

Heil ósköp

Fosfat

Heil ósköp

δ18O‰

-5,40

δD‰

-38,6

 

Trúlega lokar skriða öðrum munna á hellinum.   Vatnið er svalandi og beiskt á bragðið sem stafar af því að það er ísalt með heil ósköp af nítrati og fosfati sem eru langt ofan skaðsemismarka.  Koma þau efni í vatnið úr fugladriti.  Fyrir 7 árum síðan reyndi Björn Rúriksson ljósmyndari að lýsa upp hellinn, fyrir myndatöku, með kertum og gasljósum en telur að raflýsa þurfi hellinn til að ná viðunandi myndum því hann er svo stór og dimmur og gleypir ljósið.  Myndirnar sem greinarhöfundur tók þarna inni eru því lítið annað en leiftur af einstaka sjónhorni en undirstrika að öðru leyti reynslu Björns Rúrikssonar.

Auk hellanna þriggja: Skrúðshellis, Blundsgjárhellis og Æðhellis er til Stighellir rétt fyrir vestan Sauðakamb.  Til að komast upp í hann þarf stiga.  Er hann jafnan þéttsetinn fugli um varptímann og til eru sagnir um að þangað hafi menn stundum farið og slátrað nokkur hundruð fuglum í einu,k en hellismunninn er svo þröngur að tveir menn ná að loka fyrir hann.

Meðan dvalist er í eynni var og er venja að hafast við í Blundsgjárhelli enda er þar skjól í öllum áttum.  Baldur Rafnsson ábúandi á Vattarnesi hefur reist kofa inni í hellinum og er þar hlýrri og þægilegri vist en áður var í opnum hellinum.  Nýtir hann eyna til eggja- og fuglatekju og geta má þess að afrakstur fyrrgreindrar ferðar voru 1100 lundar.  Eyjan er unaðsleg paradís öllum náttúruskoðendum og þroskandi að dvelja þar dagstund.  Eitthvað er um ferðir þangað í seinni tíð en leita þarf eftir leyfi og flutningi hjá Baldri.  Enginn skyldi þó halda það auðveldan leik að fara upp í Skrúð.  Þangað fara einungis þeir sem eru vel stöðugir á fótunum og lausir við alla lofthræðslu.  En það er vel þess virði.

Höfundur er Jón Benjamínsson, jarðfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Hér er umfjöllun um Skrúð á Wikipediu.

Aftur upp ...


Freska Baltasar Sampers

Freska Baltasar Sampers er 50 fermetra útilistaverk sem er á stafni frystisgeymslu Eskju hf.  Verkið, sem samanstendur af 15 myndum, sýnir atvinnuhætti fortíðar og þá þróun sem hefur átt sér stað ásamt helstu kennileitum Eskifjarðar s.s. Bleiksárfossum og hinum dulmagnaða Hólmatindi.  Gerð listaverksins tók eitt ár og vegur það um 5 tonn.  Verkið var afhjúpað þann 17. júní 1990. 

Hér er grein úr Morgunblaðinu sem fjallar um þegar listaverkið var sett upp.

Aftur upp ...


 

Steinasafn Sörens og Sigurborgar

Safnið var stofnað árið 1976, hófst þá steinasöfnun fyrir alvöru ásamt því sem farið var að vinna steina, slípa og saga. Söfnun hefur aðallega farið fram á Austurlandi, en einnig í Þingeyjarsýslu og lítillega annars staðar á landinu. Sören og Sigurborg hafa að mestu leiti staðið á bak við söfnun steinanna, en vinir og kunningjar hafa þó gefið einstaka stein. Vinnsla steinanna og uppsetning safnsins hefur alfarið verið á vegum þeirra hjóna.  Safnið státar af fjölda tegunda íslenskra steina en þar er einnig að finna erlendar tegundir.

Safnið hefur ekki formlegan opnunartíma, en ef áhugi er á að skoða safnið þá vinsamlega hafið samband við eiganda þess Sigurborgu Einarsdóttur í síma 476 1177.  Hér er hægt að skoða Facebook-síðu safnsins.

Aftur upp ...


Minnisvarði um drukknaða sjómenn

Minnisvarðinn var afhjúpaður á sjómannadaginn árið 1981.  Verkið vann listamaðurinn Aage Nielsen-Edwin.

Hér má lesa grein úr Sjómannadagsblaðinu árið 1981 sem fjallar um sögu minnisvarðans

Aftur upp ...


Vöðlavík

Vöðlavík eða Vaðlavík er vík norðan Reyðarfjarðar, milli Múla og Gerpis. Í Landnámu segir að Þórir hinn hávi hafi búið í víkinni, en hún hét Krossavík fram á 17. öld. Vopnfirðinga og Kristni sögur geta þess að Þorleifur Ásbjarnarson hinn kristni hafi búið í víkinni.

Til Vöðlavíkur var ruddur vegur fyrir 1940 sem síðar var lengdur til Viðfjarðar og nýttist áður en Oddsskarðsvegur var byggður. 10. janúar 1994 strandaði skipið Goði í víkinni og bjargaði þyrlusveit Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli skipverjum. Einn fórst við strandið.

Vöðlavík eða Vaðlavík?  Hér er áhugaverð grein í Morgunblaðinu sem fjallar um þessa spurningu.

Aftur upp ...


Randulfssjóhús

Húsið var byggt árið 1890 og er einlyft timburhús. Það var flutt inn frá Noregi og er með áfastri bryggju.  Húsið var lengst notað sem síldarsjóhús.  Á efri hæð hússins er verbúð síldarsjómannanna í sinni upprunalegri mynd.  Húsið var í fyrsta sinn opnað almenningi árið 2008.

Hér má lesa nákvæma lýsingu á húsinu.

Aftur upp ...


Svartafjall

Svartafjall er 1021 m hátt og er ágætis gönguleið upp á fjallið frá gamla veginum yfir Oddskarð.  Þegar upp er komið er glæsilegt útsýni í allar áttir.

Hér má skoða myndir þegar Ferðafélag fjarðamanna Austfjörðum fór á Svartafjall.

Aftur upp ...


Bunan

Rétt fyrir neðan gamla barnaskólann sprettur fram vatn sem jafnan hefur verið kallað Bunan.  Þetta vatn hefur alltaf verið talið sérstaklega tært og svalandi og þykir afbragð til drykkjar.  Áður fyrr komu sjómenn oft hér við og sóttu sér á kútinn, áður en haldið var á róður.  Einnig var alltaf farið eftir vatni í Bununa á fyrstu árum barnaskólans.  Má búast við að margur hafi fyrr á tímum áð við Bununa til að hvíla lúin bein og svala þorsta sínum.

Aftur upp ...


Minningareitur um látna ástvini í fjarska

Minningareiturinn um látna ástvini í fjarska var vígður á 10 ára afmæli kirkjunnar 24. september árið 2010.  Grunnflöturinn er sexhyrndur eins og kirkjubyggingin og í miðju reitsins er stöpull sem ber þrjá stuðlabergssteina.  Á milli stuðlabergsins rís skúta sem kölluð er Átthagaskútan en hún táknar för hverrar sálar heim í átthagana, sama hvar lokaförin hefst.  Innan reitsins eru síðan litlir bautasteinar þar sem aðstandendur geta minnst sinna ástvina.

Aftur upp ...


Leiði Eiríks Þorlákssonar

Á Mjóeyri fór fram síðasta aftaka á Austurlandi, árið 1786. Þar var höggvinn Eiríkur Þorláksson. Þetta er leiði hans, utarlega á Mjóeyri.

Hér er hægt að skoða glærusýningu sem fjallar um þennan atburð.

Aftur upp ...


Jensenshús

Unnið hefur verið að endurbyggingu svokallaðs Jensenshúss á Eskifirði sem samkvæmt Einari Braga rithöfundar mun vera elsta uppistandandi íbúðarhús á staðnum og hefur hann lýst sögu hússins í 1. bindi Eskju, byggðasögu Eskifjarðar. Húsið er timburbygging og mun hafa verið reist árið 1837 og hefur þá verið það fyrsta sinnar gerðar á staðnum fyrir utan íbúðarhús kaupmanna sem voru tveir á þeim tíma.

Páll Ísfeld snikkari mun hafa byggt húsið fyrir mann að nafni Jón Jóhannesson en hann selur það Þorgrími Jónssyni snikkara árið 1846. Jónas Thorstensen sýslumaður sá fyrsti sem var búsettur á Eskifirði er búandi í húsinu samkvæmt sóknarmannatali árið 1854. Næst hafði þar búsetu frá 1861 Bjarni Thorlacius fyrsti læknir á Eskifirði og bjó þar til 1867. Árið 1875 kaupir Jens Pétur Jensen beykir húsið og bjó hann þar til dánardægurs árið 1912 og hefur húsið verið kennt við hann alla tíð. Síðan hafa fjölmargir búið þar allt fram til 1970. Jensenshús er lítið miðað við nútíma íbúðarbyggingar eða nálægt 4 x 8 metrar að grunnfleti. Ein hæð með bröttu risi. Á neðri hæð eru tvö herbergi eða stofur sín í hvorum enda og inngangur með stiga upp á loftið og eldhúsi í miðju en þar var hlaðinn skorsteinn úr múrsteini og upphaflega mun þar hafa verið opin eldstó. Á efri hæð eru tvö svefnherbergi undir súð sinn í hvorum enda. Jensenshús hefur verið friðlýst í allmörg ár vegna aldurs en ekki var hafin vinna við það fyrr en í október 1993 en þá voru teknar niður klæðningar á innveggjum en þær voru að mestu leiti óskemmdar frá upphaflegri gerð en innan á veggi hafði verið klætt með ýmsu móti án þess að raska þeim elstu. Á liðnu vori var hafin endurbygging hússins. Hlaðinn var úr grjóti nýr grunnur undir það til hliðar við húsið og hann hafður nokkuð hærri en sá upprunalegi sem var siginn í jörð og síðan var húsið flutt um rúmlega breidd sína frá lóðarmörkum vegna nálægðar nýlegrar byggingar og stendur það nú því nær á miðri lóð sem því tilheyrir. Eskifjarðarbær er eigandi hússins og stendur að endurbyggingu þess og hefur Húsafriðunarsjóður lagt til þess fjármagn að hluta. Áður hafði Byggðarsögunefnd Eskifjarðar staðið að kaupum á því af fyrri eigendum með aðstoð frá afmælissjóði Landsbanka Íslands o.f.l. Þorsteinn Gunnarsson arkitekt gerði uppdrætti og vinnuteikningar á vegum Húsafriðunarnefndar og Þjóðminjasafns. Umsjón með verkinu hefur haft Geir Hólm safnvörður á Eskifirði og með honum unnu Hans Einarsson húsasmiður og Pétur Karl Kristinsson. Einnig nokkrir unglingar á vegum sumarvinnu Eskifjarðabæjar.

Hér er hægt að lesa nákvæma lýsingu á húsinu.

Aftur upp ...


Leifar þýskrar herflugvélar á Valahjalla

Fyrir innan Krossanes er svæði er kallast Valahjalli.  Á þessum hjalla má finna leifar þýskrar herflugvélar sem fórst þar ásamt allri áhöfn, á aðfaranótt uppstigningardags, 22. dag maí mánaðar árið 1941.  Árið 2011 var settur upp skjöldur við flakið til minningar um þá sem fórust.

Smellið á myndina til að sjá hana stærri (mynd fengin af vef Ferðafélags Fjarðamanna)

Hér er frásögn frá þessum atburði

Aftur upp ...